Í mars 2023 lauk viðræðum á ríkjaráðstefnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um nýjan alþjóðasamning undir hafréttarsamningi S.þ. sem fjallar um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni hafsins utan lögsögu ríkja. Gildissvið samningsins er mjög rúmt og tekur hann m.a. til verndarsvæða og umhverfismats á úthafinu og nýtingar erfðaauðlinda utan lögsögu ríkja. Sameinuðu þjóðirnar hafa haft þetta málefni til meðferðar allt frá árinu 2006 en frá árinu 2018 hafa farið fram samningaviðræður á vettvangi ríkjaráðstefnunnar. Gert er ráð fyrir að samningurinn verði formlega samþykktur í New York 19. júní 2023.
Af þessu tilefni efna Hafréttarstofnun Íslands og utanríkisráðuneytið til málstofu til að kynna og ræða efni samningsins. Málstofan verður haldin á Litla torgi, Háskólatorgi, Háskóla Íslands, föstudaginn 2. júní kl. 10.00-13.00.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun setja málstofuna.
Eftirfarandi munu flytja erindi:
- Birgir Hrafn Búason, deildarstjóri þjóðréttarmála í utanríkisráðuneytinu, formaður sendinefndar Íslands á ríkjaráðstefnunni.
- Sigrún Perla Gísladóttir, fulltrúi Ungra umhverfissinna.
- Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við lagadeild H.Í., stjórnarformaður Hafréttarstofnunar Íslands
- Snjólaug Árnadóttir, lektor við lagadeild H.R., forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar.
Málstofustjóri er Tómas H. Heiðar, varaforseti Alþjóðlega hafréttardómsins í Hamborg og forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands.
Að loknum fyrirspurnum og umræðum verður boðið upp á léttar veitingar.
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.