Ráðstefnur og málstofur

Hafréttarstofnun stendur reglulega fyrir málstofum og alþjóðlegum ráðstefnum.

Ráðstefnur

Alþjóðaráðstefnan „New Knowledge and Changing Circumstances in the Law of the Sea“, 28. og 29. júní 2018

Hafréttarstofnun efndi ásamt Hafmálastofnun Suður-Kóreu (Korea Maritime Institute, KMI) til alþjóðaráðstefnu um hafréttarmál í Veröld, HÍ, dagana 28. og 29. júní 2018. Yfirskrift ráðstefnunnar, sem einnig naut stuðnings Norrænu ráðherranefndarinnar, ríkisstjórnar Hollands og K.G. Jebsen Centre for the Law of the Sea í Tromsö, var "New Knowledge and Changing Circumstances in the Law of the Sea". Alls sóttu 127 manns ráðstefnuna frá 45 löndum.

Á fjórða tug sérfræðinga flutti erindi í átta pallborðum á ráðstefnunni. Annars vegar var fjallað um málefni þar sem þekkingu hefur fleygt mjög fram og skilningur aukist frá þeim tíma sem hafréttarsamningurinn frá 1982 var gerður og hins vegar lögð áhersla á málefni hafréttarins þar sem grundvallarbreytingar eru að eiga sér stað vegna hnattrænnar hlýnunar.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, setti ráðstefnuna. Á meðal ræðumanna voru heimsþekktir sérfræðingar en fjórir Íslendingar fluttu erindi á ráðstefnunni, þau Guðmundur Eiríksson, Helga Guðmundsdóttir, Jóhann Sigurjónsson og Snjólaug Árnadóttir, auk þess sem Aðalheiður Jóhannsdóttir stýrði pallborði. Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar, stýrði ráðstefnunni.

Hafréttarstofnun veitti níu einstaklingum frá þróunarlöndum styrki til þátttöku í ráðstefnunni, frá Argentínu, Fídjí-eyjum, Jamaíka, Madagaskar, Maldíveyjum, Míkrónesíu, Samóa, Seychelleseyjum og Víetnam, en þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins veitti sérstakt framlag í þessu skyni.

Í kjölfar ráðstefnunnar var gefin út ítarleg skýrsla með útdrætti af erindum á ráðstefnunni. Auk þess hefur Brill Nijhoff gefið út bók með greinum byggðum á erindum á ráðstefnunni undir ritstjórn forstöðumanns Hafréttarstofnunar.

Alþjóðaráðstefna, „Challenges of the Changing Arctic: Continental Shelf, Navigation, and Fisheries“, Bergen, 26. og 27. júní 2014

Hafréttarstofnunin við Virginíuháskóla, Hafréttarstofnun Íslands og Háskólinn í Bergen stóðu að alþjóðaráðstefnu um norðurslóðamál, einkum landgrunnið, siglingar og fiskveiðar, í Bergen 26. og 27. júní 2014. Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar, stýrði einu pallborði og á meðal fyrirlesara voru Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, Rögnvaldur Hannesson, prófessor í Bergen, og Stefán Ásmundsson, framkvæmdastjóri NEAFC. Hafréttarstofnun hlaut styrk frá Norrænu ráðherranefndinni vegna framlags sins til ráðstefnunnar. Ráðstefnan var mjög fjölsótt og hafa erindi sem þar voru flutt verið birt í ráðstefnuriti.

Málstofur

„Hafið bláa hafið", málstofa í tilefni af 20 ára afmæli Hafréttarstofnunar, 7. október 2019.

Í tilefni af 20 ára afmæli Hafréttarstofnunar var efnt til málstofu undir heitinu „Hafið bláa hafið" í Norræna húsinu fyrir hádegi 7. október 2019.

Fjallað var um  hafáherslur í formennskum Íslands í Norðurskautsráðinu, Norrænu ráðherranefndinni og samstarfi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Björg Thorarensen, stjórnarformaður Hafréttarstofnunar, flutti afmælisávarp og eftirfarandi fluttu framsöguerindi: Einar Gunnarsson, sendiherra, formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, Geir Odsson, sérfræðingur á Norðurlandadeild utanríkisráðuneytisins, Vilhjálmur Jens Árnason, verkefnastjóri hjá Íslenska sjávarklasanum, Magnús Jóhannesson, sérlegur ráðgjafi í norðurskautsmálum í utanríkisráðuneytinu, Sigríður Ragna Sverrisdóttir, verkefnastjóri, Klappir Grænar Lausnir, og Sverrir Konráðsson, fagstjóri í siglingamálum á Samgöngustofu.

Málstofustjóri var Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar. Málstofan var fjölsótt og urðu líflegar umræður í kjölfar erinda.

Málstofa, „Smugudeilan - Þegar Íslendingar sóttu réttindi í Norðurhöf“, 9. október 2017

Hafréttarstofnun efndi ásamt Bókaútgáfunni Sæmundi til málstofu í tilefni af útgáfu rits Arnórs Snæbjörnssonar, “Smugudeilan – Þegar Íslendingar sóttu réttindi í Norðurhöf”, í fyrirlestrasal Sjávarútvegshússins í hádeginu 9. október 2017. Forseti Íslands flutti opnunarávarp en höfundur hélt síðan erindi og kynnti bók sína. Í kjölfarið spunnust nokkrar umræður. Málstofan var fjölsótt en Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar, stýrði henni. Hafréttarstofnun styrkti jafnframt útgáfu áðurnefnds rits.  

Málstofa, „Nýr hafréttarsamningur? Verndun og sjálfbær nýting líffræðilegs fjölbreytileika hafsins utan lögsögu ríkja (BBNJ)“, 22. september 2017

Hafréttarstofnun efndi til málstofu í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins í hádeginu 22. september 2017. Matthías G. Pálsson frá utanríkisráðuneytinu og Stefán Ásmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu héldu erindi, auk Tómasar H. Heiðar, forstöðumanns Hafréttarstofnunar, sem stýrði jafnframt málstofunni. Málstofan var fjölsótt og urðu líflegar umræður í kjölfar framsöguerinda.

Málstofa í tilefni af 20 ára afmæli Ródos-akademíunnar í hafrétti, Sameinuðu þjóðunum, New York, 12. júní 2015

Hafréttarstofnun stóð fyrir málstofu í Sameinuðu þjóðunum í New York 12. júní 2015 til að minnast 20 ára afmælis Ródos-akademíunnar í hafrétti sem stofnunin á aðild að. Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar, stýrði málstofunni sem var fjölsótt og kynnti starfsemi Ródos-akademíunnar. Í kjölfarið fluttu nokkrir fyrrverandi nemendur akademíunnar fyrirlestra og var Birgir Hrafn Búason frá utanríkisráðuneytinu þar á meðal.

Kynningarfundur

Kynningarfundur um Ródos-akademíuna í hafrétti, Sameinuðu þjóðunum, New York, 24. mars 2014

Hafréttarstofnun Íslands og Hafréttarstofnunin við Virginíuháskóla efndu í samstarfi við fastanefnd Íslands í New York til kynningarfundar um Ródos-akademíuna í hafrétti, sem stofnanirnar eiga aðild að, í Sameinuðu þjóðunum, New York, 24. mars 2014. Tómas H. Heiðar, forstöðumaður Hafréttarstofnunar, og Myron H. Nordquist, aðstoðarforstöðumaður Hafréttarstofnunarinnar við Virginíuháskóla, kynntu starfsemi Ródos-akademíunnar og svöruðu fyrirspurnum en fundurinn var fjölsóttur.