Styrkir
Almennt um styrki
- Hafréttarstofnun veitir að jafnaði nokkra styrki árlega til þátttöku í þriggja vikna sumarnámskeiði Ródos-akademíunnar í hafrétti sem haldið er á Ródos, Grikklandi, í júlí ár hvert. Hver styrkur felst í greiðslu þátttökugjalds og endurgreiðslu flugfargjalds og gistikostnaðar (hálft fæði innifalið). Styrkirnir eru auglýstir í upphafi viðkomandi árs.
- Stofnunin veitir enn fremur að jafnaði nokkra styrki árlega sérstaklega til einstaklinga frá þróunarríkjum til þátttöku í sumarnámskeiði Ródos-akademíunnar í hafrétti. Eftir atvikum getur verið um fulla styrki eða hlutastyrki að ræða.
- Hafréttarstofnun auglýsir að jafnaði í upphafi hvers árs styrki til framhaldsnáms í hafrétti. Um meistaranám eða doktorsnám getur verið að ræða. Það er skilyrði fyrir styrkveitingu að verulegur hluti náms sé á sviði hafréttar. Fjárhæð styrks ræðst m.a. af fyrirhuguðu námi, kostnaði vegna þess og fjárþörf viðkomandi.
- Stofnunin getur veitt styrki til fræðiskrifa og útgáfu rita á sviði hafréttar. Við ákvörðun um styrkveitingar er einkum litið til fræðilegs gildis viðkomandi greina og rita og hvort um framlag er að ræða til nýrrar þekkingar á efni sem lýtur að hafrétti.
Hafréttarstofnun veitir eftir efni og aðstæðum aðra styrki sem samræmast því markmiði stofnunarinnar að treysta þekkingu á reglum hafréttar.